Um ljósritun kennslubóka
AF GEFNU TILEFNI
Á Facebook-síðunni Bakland tónlistarkennslu birtist færsla þ. 9. september 2021 þar sem einn félagsmanna í SÍTÓN greinir frá alvarlegu tilviki um óleyfilega ljósritun á hans bókum. Þar sem umræða varðandi ljósritun tónbóka er þörf og nauðsynleg og af því tilefni sem að ofan greinir er við hæfi að árétta eftirfarandi í þeim efnum.
Staðfesting á orðrómi
Tilvikið staðfestir þann orðróm að sums staðar sé pottur brotinn varðandi ljósritun tónbóka. Í fyrsta lagi hefur sá orðrómur lengi verið á kreiki að sumir tónlistarkennarar noti nær eingöngu ljósrit í stað bóka (þetta hafa höfundar upplifað við prófdómarastörf). Í öðru lagi að einhverjir tónlistarskólar eða kennarar velji lög og verkefni úr nokkrum bókum, ljósriti, gormi og gefi eða selji nemendum ljósritin.
Virði og virðing
Liður í því að nemandi beri virðingu fyrir náminu er að eiga eigin námsbækur. Vinna með bók frekar en ljósrit stuðlar að því að nemandinn verður ábyrgari og áhugasamari í náminu því börn skynja virðismuninn á bók og ljósriti og haga sér samkvæmt því. Í námsbók finnur nemandinn faglegt samræmi og sér hvað er framundan í náminu. Spyr ef til vill hvenær megi spila það sem er aftar í bókinni. Flestir tónlistarkennarar átta sig á þessu samhengi og láta nemendur sína kaupa bækur sem þeir eru að vinna með. Um leið styðja þeir og efla íslenska tónbókaútgáfu. Sem betur fer eru flestir til fyrirmyndar hvað þetta varðar en betur má ef duga skal eins og ofangreint tilvik sýnir.
Tónbókaútgáfa
Að baki hverrar tónbókar liggur mikil vinna og fjárútlát. Velja þarf lög, afla birtingarleyfis rétthafa, útsetja og í sumum tilfellum að semja ný lög og verkefni. Setja upp handrit, vinna umbrot og leiðrétta prófarkir. Þá fyrst er hægt að láta prenta efnið svo úr verði bók. Eftir það kemur svo lagerhald, dreifing og innheimta. Sköpun bókar tekur oft 1-2 ár, stundum meira og eftir það getur tekið áratugi að halda henni við á markaði.
Höfundar og útgefendur tónbóka vona að tónlistarkennarar og skólastjórnendur séu sammála þeim um að íslensk tónbókaútgáfa sé ómissandi hluti af tónlistarfræðslu þjóðarinnar. Best er að sýna það í verki með því að halda ljósritun útgefinna bóka í lágmarki og ætíð innan löglegra og siðlegra marka.
Gylfi Garðarsson, formaður SÍTÓN