Nótnaútgáfa og ljósritun
(Grein sem birtist í fréttabréfi Félags íslenskra kórstjóra í maí 2014)
Sá sem með einum eða öðrum hætti hefur tekið þátt í eða kynnst uppsetningu, fjölföldun og jafnvel útgáfu kórnótna gerir sér líklega grein fyrir fyrirhöfninni sem því fylgir að gefa formlega út nótnarit þannig að allt sé löglegt og vandað.
Annars vegar þarf að gera ráð fyrir miklum tíma, sem flestir myndu rukka fyrir en mörgum þykir ekki óeðlilegt að tónlistarmenn gefi. Hér kemur upptalning á nokkrum vinnuliðum, þó ekki öllum:
Val á verki (er eftirspurn?). Öflun leyfa hjá rétthöfum. Val á framsetningu (kápa, stærð nótna, texta og brots, staðsetning texta, viðeigandi upplýsingar á hverri síðu ofl. ofl.). Vinna við setningu og umbrot. Útvegun prófarkalesara. Bið eftir leiðréttingum í 2-4 skipti. Leiðréttingar eftir hvert skipti. Finna hagkvæma prentun. Val á pappír. Fylgjast með prentgæðum. Koma upplaginu í geymslu. Afgreiða eintök.
Hins vegar er það útlagður kostnaður, sem flestir framleiðendur myndu setja í einingarverðið en fæstir vilja greiða þegar um nótnarit er að ræða. Hér kemur upptalning á nokkrum kostnaðarliðum, þó ekki öllum:
Leyfi rétthafa. Tæki og hugbúnaður til nótnasetningar, umbrots og prentun prófarka. Akstur. Vinnuaðstaða. Aðstoð (prófarkalestur osfrv). Prentun. Geymsla. Kynning og markaðssetning. Sendikostnaður.
Spurningin um ljósritun nótna er: Hver tapar og hver hagnast þegar öll ofangreind útgjöld eru sniðgengin með ljósritun án endurgjalds?
Svarið er: Allir tapa!