Creative Europe – Verkefnastyrkir

Á vegum EES ríkja er feikilegum fjármunum veitt árlega í að styrkja verkefni innan skapandi greina. Það sem fáir hérlendis gera sér hins vegar grein fyrir er að íslenskir aðilar hafa aðgang að þessum styrkjum, annað hvort sem stofnendur umsóknar eða sem samstarfsaðilar umsækjenda frá öðrum EES löndum. http://eacea.ec.europa.eu/img/visuals/creative-europe/jpeg/LogosBeneficairesCreativeEuropeRIGHT_EN.jpg

Sérstök upplýsingaveita heldur utanum fjárveitingar Creative Europe og er full ástæða fyrir fólk í skapandi greinum á Íslandi til að fylgjast með vefsíðunni ef hugurinn stefnir á stærri mið annarra Evrópulanda.

Dæmi um möguleg verkefni:

Hingað til hefur lítil þátttaka verið í slíkum verkefnum frá Íslandi og skýrist það líklega af rýrri og skipulagslausri ráðgjöf um styrkina hér heima. Áhugasamir gætu þó byrjað að athuga hvort Útflutningsstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) eða Skrifstofa alþjóðasamskipta við HÍ geti veitt „fyrstu hjálp“.

Vel heppnuð könnun

Könnun SÍTÓN á kennlandshlutagrafsluefni tónlistar-kennara 2016 lauk 17. janúar s.l. Stjórn SÍTÓN færir kennurum og stéttarfélögum þeirra sínar bestu þakkir fyrir ómetanlega aðstoð til að verkefnið skyldi heppnast jafn vel og raunin varð. Þátttaka var góð og nú þegar er ljóst að í niðurstöðunum eru mikilvægar vísbendingar um æskilegar viðbætur á íslensku kennsluefni fyrir grunnstig. Talsvert verk verður að vinna úr svörunum birtingarhæf gögn og er sú vinna komin áleiðis. Vonast er til að greinargerð um könnunina verði tilbúin í apríl eða maí.

Af megin niðurstöðum má nefna að yfir 275 kennarar svöruðu könnuninni sem gerir um 33% svarhlutfall. Hlutfall fullgildra svara var um 85% sem bendir til að spurningar hafi skilist vel og greiðlega gengið að svara. Með því að bera niðurstöðugögnin saman við þætti eins og Þjóðskrá og námsgreinadreifingu nemenda er vonast til að bæta áreiðanleika svaranna umfram það sem svarhlutfallið eitt segir til um. Meðfylgjandi gröf sýna fjölda svarenda eftir landshlutum og hlutfallsdreifingu svarenda eftir kennslugreinum.

kennslugreinagraf

Save

Save

Hin stórmerka saga nótnaritunar í örfáum orðum

 

Hvenær urðu nótur vestrænnar tónlistar til? Af hverju urðu þær eins og þær eru í dag? Í eftirfarandi pistli er stiklað á helstu atriðum í 2000 ára sögu vestrænnar nótnaritunar fram á okkar daga. Á innan við 15 mínútum er hægt að kynnast helstu atriðum í einni merkustu afurð evrópskrar menningar til varðveislu og útbreiðslu á tónlist aldanna.

Þróunarsaga nótnaritunar nær langt aftur í aldir. Hún er vel greinanleg aftur til ársins 800 í ritum klaustra og Páfagarðs en tilburðir til að lýsa tónlist í ritum má greina í enn eldri ritum Páfagarðs og Rómaveldis. Með nokkuri vissu hafa tákn á…(lesa áfram)

Brot úr Þorlákstíðum (14. öld)

Brot úr Þorlákstíðum (14. öld)

Um innlendar tónbækur fyrir skóla og kirkjur 1935-2014

Sem hluti af greinagerð á vegum SÍTÓN um nótnarit í landskerfi bókasafna, vorið 2014, var ritað stutt ágrip af útgáfusögu íslenskra tónbóka fyrir skóla og kirkjur á tímabilinu 1935-2014. Þar sem efnið er býsna forvitnilegt eitt og sér má lesa það í eftirfarandi sjálfstæðri grein:

Stutt ágrip af útgáfusögu íslenskra tónbóka fyrir skóla og kirkjur á tímabilinu 1935-2014

Nótur í bókasöfnum

Hvert er umfang nótnarita í íslenskum bókasöfnum? Hvers konar nótnarit eru þar og hverjir standa á bak við þau? Hver er útgáfusaga tónbóka fyrir skóla og kirkjur eftir 1935?  Þessar spurningar og ýmislegt þeim tengt er umfjöllunarefni greinagerðar SÍTÓN um skylduskráð nótnarit í íslenskum bókasöfnum vorið 2014.  Sjá nánar: Nótnarit í Gegni

Nótur og nótnaútgefendur í bókasöfnum

Nótur og nótnaútgefendur í bókasöfnum

Nótnaútgáfa og ljósritun

(Grein sem birtist í fréttabréfi Félags íslenskra kórstjóra í maí 2014)

Kor-clipartSá sem með einum eða öðrum hætti hefur tekið þátt í eða kynnst uppsetningu, fjölföldun og jafnvel útgáfu kórnótna gerir sér líklega grein fyrir fyrirhöfninni sem því fylgir að gefa formlega út nótnarit þannig að allt sé löglegt og vandað.

Annars vegar þarf að gera ráð fyrir miklum tíma, sem flestir myndu rukka fyrir en mörgum þykir ekki óeðlilegt að tónlistarmenn gefi. Hér kemur upptalning á nokkrum vinnuliðum, þó ekki öllum:
Val á verki (er eftirspurn?). Öflun leyfa hjá rétthöfum. Val á framsetningu (kápa, stærð nótna, texta og brots, staðsetning texta, viðeigandi upplýsingar á hverri síðu ofl. ofl.). Vinna við setningu og umbrot. Útvegun prófarkalesara. Bið eftir leiðréttingum í 2-4 skipti. Leiðréttingar eftir hvert skipti. Finna hagkvæma prentun. Val á pappír. Fylgjast með prentgæðum. Koma upplaginu í geymslu. Afgreiða eintök.

Hins vegar er það útlagður kostnaður, sem flestir framleiðendur myndu setja í einingarverðið en fæstir vilja greiða þegar um nótnarit er að ræða. Hér kemur upptalning á nokkrum kostnaðarliðum, þó ekki öllum:
Leyfi rétthafa. Tæki og hugbúnaður til nótnasetningar, umbrots og prentun prófarka. Akstur. Vinnuaðstaða. Aðstoð (prófarkalestur osfrv). Prentun. Geymsla. Kynning og markaðssetning. Sendikostnaður.

Spurningin um ljósritun nótna er: Hver tapar og hver hagnast þegar öll ofangreind útgjöld eru sniðgengin með ljósritun án endurgjalds?

Svarið er: Allir tapa!

Nótur (1) – Ritmál tóna

Ritmál tóna

Hvað ef?
Oft er hollt að ímynda sér hverju það breytti ef sjálfsögð fyrirbæri hefðu ekki orðið jafn sjálfsögð og þau eru. Sé ritlist tekin sem dæmi mætti spyrja: Hvað ef Halldór Laxness og aðrir rithöfundar hefðu aldrei ritað sínar sögur og þær væru eingöngu aðgengilegar sem upptökur eða munnmæli? Hvað ef fornritin hefðu aldrei verið rituð? Hver væri þá staða skáldskapar og ritlistar á Íslandi? Hvað ef almennt væri talið að ritaður texti þvældist fyrir sagnalist í heyranda hljóði – að texti væri óþarfur? Hvað hefði orðið um verk Shakespeare ef þau hefðu ekki verið rituð og gefin út? Með þessum formála má byrja að velta fyrir sér hlutverki og vægi nótnaritunar fyrir tónlist. Skipta nótur máli? Eða eru þær orðnar óþarfa stagl sem þvælist fyrir lifandi tónlistarflutningi? Hafa nótur hlutverk í framtíðinni? Er komið eitthvað betra í þeirra stað? Hvað ef allar nótur hyrfu skyndilega? Inntak slíkra spurninga um hlutverk nótnaritunar í fortíð, nútið og framtíð er auðveldara fyrir flesta að skilja sé textaritun höfð til samlíkingar.

Forskrift að upplifun
Flutningur tónlistar og upplifun hennar er hið endanlega markmið listgreinarinnar. Eins og með framsögn í leikverki þá verður tónlistin mest raunveruleg á því augnabliki sem hún er flutt. Engu að síður verður ekki hjá því komist að hugleiða hvernig best sé að skrá, varðveita og miðla tónlist fram til þess augnabliks þegar hún er flutt. Allt frá frumhugmynd til lokaútgáfu listaverks í tónum eða texta verða höfundar og aðrir sem að verkinu koma að reiða sig á bestu varðveislu- og miðlunartækni sem listgreininni stendur til boða hverju sinni. Hvað tónlist varðar var nótnaritun besta tæknin fram að miðri 20. öld til að leysa slík verkefni. Með hjálp nótnaritunar hafa allir megindrættir tónlistar Evrópu síðustu 10 alda varðveist og átt sinn þátt í að svara sígildum spurningum kynslóðanna um sögu okkar og menningarafrek. Og hið sagnfræðilega eðli nótnaritunar mun einnig svara spurningum komandi kynslóða um tónmenningu okkar tíma. Hvað tónlist varðar þá var nótnaritun og er enn, þrátt fyrir allt, sú miðlunaraðferð sem best gegnir sambærilegu hlutverki og textaritun gerir fyrir talað mál.

Nótur (2) – Til hvers?

Til hvers eru nótur?

Að læra lag
20. öldin leiddi fram fjölda lausna til að varðveita hljóð og miðla því áfram. Öll tónlistarmenning hefur haft ómetanlegt gagn af þeirri þróun og hefur hljóðritun verið útbreiddasta miðlunaraðferð tónlistarflutnings mjög lengi. Hljóðritun hefur jafnvel unnið sér sess við sjálfa tónsköpunina með ýmsum hætti. Undir lok aldarinnar gáfu tölvubyltingin og Netið af sér röð af nýjum lausnum fyrir hljóðrit þannig að sköpun, skráning og miðlun allrar tónmenningar hefur stökkbreyst á fáum árum. Frammi fyrir öðrum eins tæknibyltingum verða margir hugsi og spyrja þá hvort allar fínu tækninýjungarnar geri fyrri aðferðir úreltar eða gagnslausar? Á sviði tónlistar hefur hin gamla og þrautreynda miðlunaraðferð, nótur, oft fengið úreldingarúrskurðinn á liðnum áratugum. En sæluvíma tækniframfaranna hverfur fljótt þegar á hólminn er komið. Þá sést að jafnvel það lítilræði að læra einfalda laglínu og hljómagang af hljóðupptöku getur reynst furðu brösótt. Til að ná tökum á einföldu gítarspili er hægt að fara á Netið og skoða þar tabulatur rit (TAB) af lagi samhliða hlustun á hljóðupptöku af því. En hversu fljótlegt og nákvæmt er það raunverulega? Í einföldu gítarspili getur samanburður hljóðrits og TAB vissulega nálgast miðlunargetu nótna en vantar samt margt sem nótur búa yfir.

– og miklu meira
Að föndra með einfalda tónlist er ein af vinsælustu dægrastyttingum nútímans. Sé tími nægur og nákvæmni ekki efst á blaði er hægt að koma ýmsu listrænu í verk án nótna. Í léttri tónlist er þannig mikið unnið nótnalaust. En eftir því sem verkefnin stækka eru gerðar meiri kröfur um kunnáttu og reynslu. Og þegar kemur að flóknum atriðum, tímapressu og öllum þeim hljóðfærum sem geta ekki nýtt ýmsa hraðritun eða aðra einföldun þá er einboðið að styðjast við nótur. Ástæðurnar eru margar.
Á meðal margra kosta nótna er að geta þjónað flestum hljóðfærum, flestum stílum og öllum stærðum af tónverkum. Nákvæmnin sem nótnaritun býður uppá, óháð umfangi tónverka, er grundvöllur stórkostlegustu tónlistar Vesturlanda. Án nótna gæti „big-band“, ópera eða sinfóníuhljómsveit þurft mánuði eða jafnvel alls ekki afrekað það sem er mögulegt á einum degi með nótum. Eftirsóttustu hljóðverstónlistarmenn heimsins („session-menn“) eru undantekningarlítið flugfærir í nótnalestri vegna þess að því fyrr sem allir eru með á nótunum því fyrr næst besta upptakan með minnstum framleiðslukostnaði.
Að öllu athuguðu verður að segjast að nú í upphafi 21. aldar eru nótur tónlistarlífinu álíka nauðsynlegar og þær voru á 19. öldinni – við sköpun, varðveislu og miðlun tónlistar. Þótt hljóðritun sé allsráðandi í miðlun á tónlistarflutningi breytir það ekki þeirri staðreynd að hljóðritið sem slíkt er í megin atriðum óbreytt frá tímum Edisons. Í eðli sínu er hljóðrit ófært um að miðla mikið af mikilvægum skýringum sem þarf til að læra söng eða tónverk og syngja eða spila á eigin spýtur. – Hvaða tónar eru í þessum hljómi? Er sungið „runn“ eða „brunn“? Hvernig næst þessi trilla? Hvernig er raddsett? Við slíkum spurningum er yfirleitt erfitt að finna svör í hljóðriti en í nótnariti er þeim oftast fljótsvarað.

Áfram nótur
Með tilkomu tölva varð bylting í nótnasetningu og Netið hefur opnað farvegi fyrir nótnadreifingu sem áður voru óhugsandi. Í dag er því hægt að framleiða og miðla nótum á ódýrari og öflugri hátt en nokkurn tíma áður. Víst mun lifandi flutningur og túlkun tónlistar ætíð vera á hendi hljóðfæraleikara og söngvara og hljóðrit helsti miðill viðburðarins. En til að áherslur í tónverki berist óbrenglaðar frá höfundi til iðkanda og til að varðveita tónlistararfinn um ókomin ár þá er gamla nótnaaðferðin ennþá best.  – Til þess eru nótur!

Aðalfundur 2013

Aðalfundur SÍTÓN 2013 var haldinn 29. maí í Tónlistarsafni Íslands, Kópavogi.
Í stjórn voru kosnir Gylfi Garðarsson, formaður, Björgvin Þór Valdimarsson, gjaldkeri og Jón Kristinn Cortez, ritari.
Varamenn í stjórn voru kosnar Marta Sigurðardóttir, Guðfinna Guðlaugsdóttir og Linda Margrét Sigfúsdóttir. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir Sigvaldi Snær Kaldalóns og Sigurður I. Snorrason.

Verkefni nýliðins vetrar
Í greinargerð formanns um gang verkefna frá síðasta aðalfundi ber hæst baráttu SÍTÓN fyrir aðild að Fjölís auk fleiri góðra mála eins og fjölgun félaga, kynning á félaginu, aðild að erlendum samtökum, kynning íslenskra tónbókaútgefenda á Musikmesse Frankfurt, tilkynning um ljósritunarbann og ýmislegt fleira.

Verkefni út 2013
Af verkefnum félagsins fram að næsta aðalfundi ber hæst áframhaldandi barátta fyrir aðild að Fjölís, nú fyrir gerðardómi, og úrvinnsla málsins eftir að dómur hefur fallið í sumar. Haldið verður áfram með kynningu á félaginu, fjölgun félaga, erlent og innlent samstarf og ýmislegt fleira eftir föngum. Sérstaklega verður reynt að leita leiða til erlendrar kynningar og útflutnings á íslenskum tónbókum ef styrkir og hjálp fæst frá viðeigandi sjóðum, stofnunum og öðrum mögulegum aðilum.

Á Musikmesse Frankfurt

Formaður SÍTÓN fór á tónlistarkaupstefnuna í Frankfurt í apríl m.a. til að kynna efni íslenskra útgefenda.  Á fyrsta degi stefnunnar voru pallborðsumræður á vegum sambands tónbókaútgefenda Þýskalands (DMV) og alþjóðasamtaka tónbókaútgefenda (ICMP). Eins og sést á bakgrunni myndarinnar að neðan var efni fundarins fjölföldun tónbóka í tónlistarkennslu og leiðir til að svara því.

Gylfi Garðarsson frá SÍTÓN og Ger Hatton framkvæmdastjóri ICMP

Gylfi Garðarsson frá SÍTÓN og Ger Hatton framkvæmdastjóri ICMP